31.8.2015 | 12:40
Enchanted Forest; Litabók fyrir fullorðna
Það hefur eflaust ekki farið framhjá neinum að litabækur fyrir fullorðna eru mjög vinsælar þessa dagana. Ég er persónulega mjög hrifin af litabókum og það er gaman að geta setið við hliðina á litla stráknum mínum og litað mynd af fallegri kanínu eða fjöðrum í stað ofurhetju eða Dóru landkönnuð. Að lita í litabók tekur mann aftur í tímann þar sem lítið annað kemst fyrir en að lita ekki út fyrir og velja litasamsetningar á fallega mynskreyttar blaðsíður litabókarinnar.
Enchanted Forest er ævintýraleg litabók eftir Johanna Basford og er hún algjört augnakonfekt og einsaklega hjálpsöm fyrir sveimhuga eins og mig sjálfa.
Litabækur eru fullkomnar í hlutverk stafrænnar hreinsunar. Að lita í litabók hjálpar til við að róa hugann og fá betri yfirsýn yfir hugsanir líðandi stundar, æfir þolinmæðina og samvinnu/samhæfingu hugar og handar.
Þegar hugsanir mínar eiga það til að verða of margar rekast þær reglulega á hvora aðra með þeim afleiðingum að þær blandast saman í einn mjög misheppnaðan graut, þá tek ég einfaldlega upp litabókina og lita þar til ég finn ró. Það svínvirkar. Það virkar meira að segja það vel að ég hef fengið margar góðar hugmyndir á meðan ég lita því ég næ að tæma hugann og finna miðjuna.
Fyrir sveimhuga landsins mæli ég með eintaki af litabók fyrir fullorðna.
Bloggar | Breytt 1.9.2015 kl. 15:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)